Handbolti

Stjarnan rændi heilu handboltaliði frá okkur á einni nóttu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tite Kalandadze í leik með Stjörnunni.
Tite Kalandadze í leik með Stjörnunni.
Formaður handknattleiksráðs ÍBV, Magnús Bragason, segir útilokað að óánægja Stjörnunnar í garð annarra íslenskra félaga eigi við um ÍBV.

Líkt og greint var frá á Vísi í gær hefur kvennalið Stjörnunnar dregið sig úr keppni í efstu deild kvenna á komandi tímabili. Í yfirlýsingu frá Stjörnunni í gær kom meðal annars fram óánægja með ónafngreind íslensk félög í samskiptum við leikmenn Garðbæinga.

Við fögnum því í sjálfu sér, að önnur félög horfi til leikmanna Stjörnunnar þegar nauðsyn er á styrkingu viðkomandi liða, en ítrekum óánægju okkar með að sum félög skuli ekki virða lög og reglur HSÍ um samningsbundna leikmenn," segir í yfirlýsingunni.

Elísabet Gunnarsdóttir gekk nýverið til liðs við Fram auk þess sem Florentina Stancia á í viðræðum við ÍBV. Magnús Bragason, formaður handknattleiksráðs ÍBV segir félagið saklaust af því að brjóta lög og reglur HSÍ og ekki sé mögulegt að Stjarnan sé óánægt með Eyjamenn.

„Nei, það getur ekki verið. Það er útilokað vegna þess að við höfum ekki rætt við samningsbundna leikmenn hjá þeim. Ekki fyrr en Stjarnan gaf út að félagið yrði ekki með. Við munum örugglega heyra í öðrum stelpum hvort þær vilji koma en engar aðrar samningaviðræður eru í gangi en við Florentinu," segir Magnús.

Magnús segir vel geta verið að Reykjavíkurfélög hafi verið að trufla starf Garðbæinga en Eyjamenn séu saklausir. Florentina hafi sett sig í samband við ÍBV eftir að ljóst var í hvað stefndi í Garðabænum.

„Mér finnst þetta óttalegur væll í þeim því ég man eftir því þegar þeir rændu heilu handboltaliði frá okkur í Vestmannaeyjum. Þeir gerðu það reyndar með löglegum hætti en ekki drengilegum. Þeir tóku Tite (Kalandadze), Roland Eradze og Florentinu öll eina nóttina," segir Magnús.

Ásmundur Jónsson, formaður meistaraflokksráðs kvenna hjá Stjörnunni, neitaði að gefa upp hvaða félög Garðbæingar væru ósáttir við þegar Vísir hafði samband við hann í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×