Fótbolti

UEFA vísar Olympiakos Volos úr Evrópudeildinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Achilleas Beos stjórnarformaður Volos hylur handjárnin eftir réttarhöldin í Grikklandi í júní.
Achilleas Beos stjórnarformaður Volos hylur handjárnin eftir réttarhöldin í Grikklandi í júní.
Gríska knattspyrnufélaginu Olympiakos Volos hefur verið vísað úr Evrópudeildinni. Félagið átti að mæta Paris Saint Germain í 4. umferð forkeppninnar í næstu viku en varð uppvíst um hagræðingu úrslita í heimalandinu.

Gríska knattspyrnusambandið ákvað fyrr í vikunni að draga stig af tveimur félögum, Volos og Kavala, en upphaflega átti að senda félögin niður í næstefstu deild. Volos byrjar tímabilið með -10 stig en Kavala -8 stig.

Nú hefur UEFA tekið málið fyrir og refsað Volos sem fyrr segir með útilokun frá frekari þátttöku í Evrópudeildinni. Félagið tryggði sér sæti í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð þegar félagið hafnaði í fimmta sæti.

Forsvarsmenn Volos hafa til miðnættis á mánudaginn að áfrýja úrskurðinum. Lögfræðingur félagsins hefur sagt að félagið muni áfrýja úrskurðinum og leita réttar síns hjá alþjóða áfrýjunardómstól íþróttamála.

Rannsókn UEFA á hagræðingu úrslita í Grikklandi hófst í júní. Talið er að úrslitum í yfir 40 viðureignum í Grikklandi hafi verið hagrætt. Þar á meðal eru viðureignir í efstu deild þar í landi.

UEFA á eftir að ákveða hvaða félag tekur sæti Volos í Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×