Golf

Tinna hóf titlvörnina á því að setja vallarmet

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tinna Jóhannsdóttir.
Tinna Jóhannsdóttir. Mynd/GVA
Keiliskonan Tinna Jóhannsdóttir byrjar titilvörn sína vel á Íslandsmótinu í höggleik en hún er með eins höggs forystu á Eyglóu Myrru Óskarsdóttur úr GO eftir fyrsta daginn í meistaraflokki kvenna á Íslandsmótinu sem hófst í dag á Hólmsvelli í Leiru.

Tinna byrjaði reyndar ekki hringinn neitt alltof vel því hún fékk tvo skolla á fyrri níu en hún gerði hinsvegar engin mistök á seinni níu sem hún spilaði á þremur höggum undir pari. Tinna endaði því hringinn á 69 höggum og sló þar með vallarmet sem Ragnhildur Sigurðardóttir GR og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir áttu (70 högg).

Eygló Myrra Óskarsdóttir tapaði fjórum höggum á fyrstu þremur holunum en lét ekki bugast og spilaði síðustu fimmtán holurnar frábærlega eða á sex höggum undir pari. Eygló lék fyrsta hringinn því á 70 höggum eða á tveimur höggum undir pari.

Signý Arnórsdóttir GK og Valdís Þóra Jónsdóttir GL eru síðan jafnar í 3. sætinu en þær léku báðar á 71 höggi eða á einu höggi undir pari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×