Golf

Þrír efstu kylfingar heimslistans verða saman í ráshóp

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Luke Donald er efstur á heimslistanum.
Luke Donald er efstur á heimslistanum. AP
Þrír efstu kylfingar heimslistans í golfi verða saman í ráshóp fyrstu tvo keppnisdagana á opna bandaríska meistaramótinu í golfi sem hefst á fimmtudaginn. Graeme McDowell frá Norður-Írlandi, sem hefur titil að verja á mótinu, verður í ráshóp með Louis Oosthuizen frá Suður-Afríku. Oosthuizen sigraði sem kunnugt er á opna breska meistaramótinu en með þeim í ráshóp verður áhugamaðurinn Peter Uihlein sem sigraði á opna bandaríska meistaramótinu.

Luke Donald frá Englandi er efstur á heimslistanum en hann verður í ráshóp með landa sínum Lee Westwood og Þjóðverjanum Martin Kaymer. Donald og Westwood eiga enn eftir að brjóta ísinn og sigra á einu af fjórum stórmótum hvers árs.

Mótið fer fram á Congressional vellinum í Bethesda, Maryland. Tiger Woods verður ekki á meðal keppanda á mótinu í ár vegna meiðsla. Hann hefur ekki misst af þessu móti s.l. 15 ár en Woods er meiddur á hné og hásin.

Phil Mickelson frá Bandaríkjunum sem varð annar á opna bandaríska meistaramótinu fyrir ári síðan verður í ráshóp með Bandaríkjamanninum Dustin Johnson og Norður-Íranum Rory McIlroy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×