Fótbolti

Guardiola: Rétt hjá Ferguson að fá mig ekki til United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola í leik með Barcelona.
Pep Guardiola í leik með Barcelona. Mynd/AFP
Sir Alex Ferguson og Pep Guardiola mætast með lið sín í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley í kvöld en fyrir tíu árum voru ágætar líkur á því að Pep Guardiola myndi spila fyrir Ferguson hjá Manchester United.

Guardiola átti frábæran feril í búningi Barcelona en var að þarna að leita sér að nýju liði á endakafla ferils síns. Hann valdi það frekar að fara til ítalska liðsins Brescia.

„Ég átti æðislegan tíma hjá Brescia, hitti yndislegt fólk og naut mín. Ef ég hefði farið til Manchester United þá hefði ég hætt fyrr. Alex Ferguson tók rétta ákvörðun með að fá mig ekki til United því ég var á niðurleið sem leikmaður," sagði Pep Guardiola sem var lykilmaður í liði Barcelona undir stjórn Johan Cruyff.

Guardiola hélt flæðinu í gangi hjá Barca-liðinu sem var með stórstjörnur innanborðs eins og Hristo Stoichkov, Ronald Koeman og Michael Laudrup. Guardiola spilaði einfalt og staðsetti sig vel á vellinum og Sir Alex Ferguson hefur viðurkennt að hann var mjög hrifinn af Guardiola sem leikmanni.

„Ég hafði mikinn áhuga á Guardiola á þessum tíma og ég talaði við umboðsmanninn hans þegar hann fór frá Barcelona. Þetta var tapað tækifæri því hann fór til Ítalíu en ég dáðist af honum sem leikmanni og þá sérstaklega sendingunum hans," sagði Sir Alex Ferguson um leikmanninn Guardiola.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×