Fótbolti

Sir Alex: Rooney og strákarnir miklu þroskaðari nú en 2009

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Ferguson var léttur á blaðamannfundinum.
Alex Ferguson var léttur á blaðamannfundinum. Mynd/AP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að lið sitt sé mun þroskaðra í dag en þegar það tapaði 0-2 fyrir Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildarinnar fyrir tveimur árum. United fær annað tækifæri á móti Barcelona þegar liðin mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley í kvöld.

„Ef við spilum vel í þessum leik þá eigum við góða möguleika og ég tel að við höfum leikmenn sem kunna vel við sig á þessu stóra sviði," sagði Alex Ferguson á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Við erum sterkari andlega en fyrir tveimur árum. Rooney hefur bætt sig mikið sem leikmaður í Evrópuboltanum og er miklu þroskaðri en hann var árið 2009," sagði Ferguson sem sat við hlið Rio Ferdinand og Nemanja Vidic á fundinum og sagði að reynsla þeirra væri liðinu dýrmæt.

„Barcelona hefur frábæra hæfileika en ég held að okkar hæfileikar fái líka að njóta sín þannig að þetta ætti að verða frábær leikur," sagði Ferguson.

„Við erum mun einbeittari en fyrir tveimur árum og ég held að undirbúningur okkar sé betri nú," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×