Fótbolti

Real Madrid vill að UEFA dæmi sex Barcelona-menn í bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dani Alves var borinn útaf á börum eftir tæklingu Pepe.
Dani Alves var borinn útaf á börum eftir tæklingu Pepe. Mynd/AP
Forráðamenn Real Madrid heimta að UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, refsi Pep Guardiola, þjálfara Barcelona og leikmanninum Dani Alves fyrir óíþróttamannslega framkomu í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Þeir eru samt ekki þeir einu sem Real-menn ásaka um óíþróttamannslega hegðun.

Real Madrid ætlar ekki að gefa neitt eftir í þessu "stríði" spænsku risanna því þeir vilja að Sergio Busquets, Dani Alves og Pedro fái tveggja leikja bann og þeir Seydou Keita, Víctor Valdés og Javier Mascherano fái eins leiks bann. Það gekk mikið á þessum leik sem lauk með 2-0 sigri Barcelona en leikmenn Barcelona stunduðu það að gera mikið úr hverri einustu tæklingu í leiknum.

Pepe fékk rautt spjald fyrir brot á Dani Alves sem var borinn útaf "stórslasaður". Myndir af atvikinu sýndu hinsvegar að Pepe kom ekki við Alves sem var fljótur inn á völlinn aftur og bar þess engin merki að hafa legið sárþjáður í grasinu aðeins nokkrum sekúndum áður.

Real Madrid hefur einnig tilkynnt það að aðstoðarþjálfarinn Aitor Karanka munu tala fyrir hönd liðsins í aðdraganda seinni leiksins í Barcelona á morgun en það mun hinsvegar ekki heyrast neitt frá aðalþjálfaranum Jose Mourinho.

UEFA kærði Jose Mourinho fyrir ummæli sína eftir fyrri leikinn þar sem hann talaði meðal annars um að Barcelona fengi alltaf hjálp í Meistaradeildinni og Guardiola gæti varla notið þess að vinna alltaf á "svindli".








Fleiri fréttir

Sjá meira


×