Fótbolti

Ferguson: Úrslitaleikurinn verður frábær

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Alex Ferguson, stjóri Manchester United, á von á frábærum úrslitaleik þegar að lið hans mætir Barcelona á Wembley-leikvanginum þann 28. maí.

United vann 4-1 sigur á Schalke í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld og 6-1 samanlagt. Liðið hafði lítið fyrir sigrinum, þó svo að Ferguson hafi hvílt marga lykilmenn í kvöld.

„Ég held að þetta verði frábær úrslitaleikur,“ sagði Ferguson við enska fjölmiðla eftir leikinn í kvöld. „Það eru nokkrar vikur í leikinn og ég vona að allir verði klárir í slaginn.“

Þetta er í þriðja sinn sem Ferguson fer í úrslitaleik Meistaradeildarinnar með lið United. „Stóri munurinn nú er að í þetta sinn verður enginn í banni. 1999 voru Roy Keane og Paul Scholes fjarverandi og svo Darren Fletcher árið 2009. Það er enginn í banni núna og það skiptir máli.“

„Þetta er stærsta keppni heimsins og öll bestu liðin taka þátt í henni. Það er afrek út af fyrir sig að komast í úrslitaleikinn en ekkert jafnast á við að vinna titilinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×