Portúgölsku liðin Porto og Braga tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitaleik Evrópudeildar UEFA sem fer fram í Dublin þann 18. maí.
Porto tapaði í kvöld fyrir Villarreal, 3-2, á Spáni en það kom ekki að sök þar sem að Porto vann fyrri leikinn 5-1 og því samanlagt 7-4.
Braga mætti löndum sínum í Benfica í hinni undanúrslitarimmunni og vann 1-0 sigur á heimavelli í kvöld. Benfica vann fyrri leikinn, 2-1, og staðan í rimmunni því jöfn, 2-2. Braga komst þó áfram á útivallarmarkinu sem liðið skoraði í fyrri leiknum.
Braga kom nokkuð á óvart með því að komast áfram en þetta er í fyrsta sinn í sögu félagsins sem það kemst í úrslitaleik í Evrópukeppni.
Leikmenn Benfica misnotuðu þó fjölda tækifæra í leiknum en Braga hafði fyrir leikinn unnið alla sína Evrópuleiki á heimavelli í vetur. Það breyttist ekki í kvöld.
Boltavaktin:
Braga - Benfica
Villarreal - Porto
Porto mætir Braga í úrslitum Evrópudeildarinnar
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
