Handbolti

Einar Jónsson: Stelpurnar eru klárar í slaginn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Einar Jónsson. Mynd/Vilhelm
Einar Jónsson. Mynd/Vilhelm
Fram tekur í dag á móti Val í öðrum leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn, en leikurinn fer fram kl 16:00 í Safamýrinni. Valur bar sigur úr býtum á föstudagskvöldið 24-20 og leiðir einvígið 1-0. Þetta er því gríðarlega mikilvægur leikur fyrir Safamýrastúlkur.

Tapi Fram í dag er Valur komið í 2-0 í einvíginu og þurfa aðeins einn sigur til viðbótar til þess að landa Íslandsmeistaratitlinum. Þessi lið mættust í úrslitaeinvíginu á síðustu leiktíð og þá þurfti fjóra leiki, en Valsstúlkur unnu lokaleikinn og tryggðu sér titilinn.

„Við erum alveg klárar í leikinn í dag. Liðið er búið að fara vel í gegnum það sem misfórst í síðasta leik".

„Við gerðum um tuttugu tæknifeila á föstudaginn þar sem við hreinlega köstuðum boltanum frá okkur," sagði Einar.

Leikurinn á föstudaginn var gríðarlega hraður og leikið á virkilega háu tempói.

„Bæði lið vilja spila hratt og það mun líklega ekkert breytast í dag, en ég verð að sjá hvernig leikurinn mun þróast".

Stella Sigurðardóttir, leikmaður Fram, virtist eiga við smávægileg meiðsli í síðasta leik, en Einar hefur litlar áhyggjur af því.

„Það eru allir leikmenn í fínu standi hjá mér enda er þetta úrslitaeinvígi, þá þarf eitthvað mikið til," sagði Einar nokkuð brattur fyrir leikinn í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×