Skoðun

Launafólk ber byrðarnar

Seðlabanki Íslands lækkaði stýrivexti sína um eina prósentu á miðvikudag, meira en margir höfðu búist við. Þessi lækkun er því fyrst og fremst að þakka að horfur í efnahagslífinu eru betri en spáð hafði verið, til dæmis af Seðlabankanum sjálfum í maí.

Þó atvinnuleysi sé allt of mikið og taka þurfi á því af meiri festu en hingað til hefur verið gert, er það þó minna en spár gerðu ráð fyrir. Verðbólga hefur hjaðnað og fjárfestingar í atvinnurekstri eru meiri en reiknað hafði verið með. Það eru með öðrum orðum ýmis teikn á lofti um að botninum sé náð.

Hverju má þakka þennan árangur? Vissulega er hægt að tína margt til, en ég held að allir geti verið sammála um að fyrst og síðast sé það launafólk í landinu sem hefur borið byrðarnar. Ofan á öll persónuleg áföll hefur kaupmáttur þess rýrnað. Samið var um hækkun lágmarkstaxta í tengslum við stöðugleikasáttmálann, gegn efndum ríkisstjórnarinnar á mikilvægum sviðum, sem ekki hafa allar gengið eftir.

Forsendur Seðlabankans, sem birtast í Peningamálum, vekja hins vegar athygli. Þar segir, á síðu 12: „Ekki hafa komið fram nýjar vísbendingar sem benda til aukins launaþrýstings og ekki er gert ráð fyrir að mikill þrýstingur verði við gerð næstu kjarasamninga um að leiðrétta kaupmátt launa."

Seðlabankinn er að sönnu ekki ríkisstjórnin, en gjalda verður varhug við því að gengið sé að því sem vísu að launafólk taki á sig endalausar byrðar.

Tvö aðildarfélög BSRB hafa ekki enn náð kjarasamningum og samningar annarra eru lausir í lok nóvember. Þá bíður okkar allra að semja á ný, með hagsmuni félaga okkar og samfélagsins alls að leiðarljósi. Vissulega er okkur þröngur stakkur skorinn, en það hlýtur að koma að því að fólkið í landinu fái að njóta betra ástands í efnahagsmálum.




Skoðun

Sjá meira


×