Handbolti

42 ára markvörður vill spila á HM í Svíþjóð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tomas Svensson hefur unnið marga sigra með sænska landsliðinu.
Tomas Svensson hefur unnið marga sigra með sænska landsliðinu. Nordic Photos / AFP
Goðsögnin Tomas Svensson, markvörður sænska landsliðsins í handbolta til margra ára, vill komast aftur í sænska landsliðshópinn fyrir HM sem fer fram þar í landi í janúar næstkomandi.

„Það væri yndislegt að fá að spila á HM í mínu heimalandi," sagði Svensson í samtali við sænska fjölmiðla. „Ég mun geta mitt besta og við verðum bara að sjá til hvort það dugi til."

Svensson spilar með Valladolid á Spáni og er það fimmta félagið sem hann spilar með þar í landi. Hann fór fyrst til Spánar fyrir 20 árum síðan og hefur spilað þar alla tíð síðan, fyrir utan þrjú ár er hann var á mála hjá HSV Hamburg í Þýskalandi.

Hann á að baki á fjórða hundrað landsleiki með Svíþjóð og var hluti af gullaldarliðinu sem vann nánast allt sem hægt var að vinna. Hann spilaði síðast með Svíum árið 2008.

„Það eru sex mjög góðir markverðir í Svíþjóð og Tomas er einn þeirra," sagði Staffan Olsson, annar landsliðsþjálfara Svía. „Hann hefur ekki spilað mikið í Meistaradeildinni í ár en býr yfir mikilli reynslu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×