Lífið

Andri Snær með Matt Damon í umdeildri heimildarmynd

Andri Snær Magnason rithöfundur og Gylfi Zoëga eru í ansi merkilegum hópi í heimildarmyndinni Inside Job eftir Charles Ferguson sem slegið hefur í gegn á kvikmyndahátíðinni í Cannes.
Andri Snær Magnason rithöfundur og Gylfi Zoëga eru í ansi merkilegum hópi í heimildarmyndinni Inside Job eftir Charles Ferguson sem slegið hefur í gegn á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

„Þetta hlýtur að vera toppurinn á tilverunni, að vera í mynd með Matt Damon sem sýnd er í Cannes," segir rithöfundurinn Andri Snær Magnason. Hann er hluti af viðmælendateymi heimildarmyndarinnar Inside Job eftir Charles Ferguson sem vakið hefur mikla athygli á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Myndin fjallar um það mikla fjármálahrun sem átti sér stað með falli bandarísku bankanna árið 2008. Þulur myndarinnar er áðurnefndur Damon, stórstjarna frá Hollywood, en meðal annarra sem Ferguson ræddi við og birtast í myndinni eru Eliot Spitzer, fyrrverandi borgarstjóri New York, George Soros, valdamikill ungverskur fjárfestir og Dominique Strauss-Kahn, forstjóri AGS auk Gylfa Zoëga hagfræðings.

Andri segist ekki geta ímyndað sér, miðað við alla þá miklu höfðingja sem teknir eru tali í myndinni, að hann sé mikið í mynd.

„Kannski þrjátíu sekúndur. Ekki meira. Ég var bara beðinn um að lýsa því hvað gerðist á Íslandi og gerði það. Ég fékk aldrei að sjá hvernig þetta leit út, veit raunar ekkert hvað ég segi í þessari mynd."

Eftir því sem erlendir fréttamiðlar greina frá byrjar myndin á Íslandi en færir sig síðan vestur um haf. Andri segir jafnframt að leikstjórinn hafi fest kaup á nokkrum þyrluskotum af Íslandi sem notuð voru í heimildarmyndinni Draumalandið. - fgg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×