Hlíð er mitt á milli Steina og Þorvaldeyrar. „Ég er vestan við Þorvaldseyri og austan við Steina. Bærinn stendur ofar í hlíðinni."
Sigurgeir segir að eiginkona hans og sonur hafi ekki brugðist við öskufallinu með því að þétta rifur og annað slíkt. Askan sé mjög fíngerð. „Við getum ekkert gert. Askan smýgur alls staðar inn og það væri alveg sama hvort að við myndum þétta og frauða því þá værum við um leið að loka fyrir súrefni. Það gefur auga leið."
Skrýtnari en venjulega
Sigurgeir segir að þau finni vel fyrir öskunni. „Við erum skrýtnari en venjulega," segir hann og hlær en bætir við: „Við finnum fyrir sviða í augum þó að við séum innan dyra og þá höfum við aðeins fundið fyrir höfuðverk." Nú sé logn og það sé ekki gott.

„Ég tók þessar myndir um leið og við fórum að athuga með skepnur. Við höfum farið fjórum til fimm sinnum út til að kanna vatn og ástandið á þeim," segir Sigurgeir sem er með nautgripi, kindur og nokkur hross.