Körfubolti

Logi skoraði 38 stig í sigri Solna í kvöld - Sundsvall vann líka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson.
Íslendingaliðin Solna Vikings og Sundsvall Dragons unnu bæði góða sigra í sænska körfuboltanum í kvöld þar sem Logi Gunnarsson var sjóðheitur og skoraði 38 stig fyrir Solna-liðið.

Logi Gunnarsson braut tuttugu stiga múrinn í þriðja sinn í jafnmörgum leikjum í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta og gerði gott betur en það þegar hann skoraði 38 stig í 31 stigs sigri Solna Vikings á nágrönnum sínum í liði 08 frá Stokkhólmi, 93-65.

Logi hafði skorað 22 stig og 21 stig í fyrstu tveimur leikjum Solna en hann var óstöðvandi í kvöld með 38 stig á aðeins 25 mínútum.  Logi hitti úr 13 af 22 skotum sínum í leiknum en hann skoraði sjö þriggja stiga körfur.

Hlynur Bæringsson lék ekki með Sundsvall í kvöld en það kom ekki að sök þegar liðið vann fimm stiga útisigur á Jamtland, 75-70. Jakob Örn Sigurðarson skoraði 9 stig og tók upp hanskann fyrir Hlyn í fráköstunum með því að taka 10 slík eða mest allra í sínu liði.

Sundsvall Dragons hefur unnið 3 af fyrstu 4 leikjum sínum en Solna Vikings er með tvo sigra í fyrstu þremur leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×