Lífið

Goðsögn hættir hjá Vogue

Glæsileg Roitfeld er ávallt glæsileg til fara og fylgist vel og vandlega með tískunni.
Nordicphotos/getty
Glæsileg Roitfeld er ávallt glæsileg til fara og fylgist vel og vandlega með tískunni. Nordicphotos/getty

Carine Roitfeld, ritstjóri franska Vogue, mun láta af störfum í lok janúar á næsta ári. Hún hefur gegnt starfinu frá því árið 2001.

Goðsögnin Carine Roitfeld er fædd í París árið 1954 og hóf feril sinn innan tískuheimsins sem fyrirsæta átján ára gömul. Auk starfsins hjá franska Vogue hefur Roitfeld starfað sem blaðamaður og stílisti hjá franska Elle og sem sjálfstætt starfandi stílisti. Roitfeld vann lengi með ljósmyndaranum Mario Testino, en hann er meðal annars frægur fyrir ljósmyndir sínar af Díönu prinsessu. Saman unnu þau meðal annars að auglýsingaherferðum fyrir tískuhúsið Gucci á tíunda áratugnum og að tískuþáttum fyrir bandaríska og franska Vogue.

Roitfeld var lengi sérlegur ráðgjafi hönnuðarins Tom Ford og vilja sumir meina að þau ætli að endurvekja samstarf sitt nú í byrjun næsta árs en það hefur þó ekki fengist staðfest. Roitfeld hefur þó viðurkennt að hún ætli að einbeita sér að persónulegum verkefnum þegar hún hefur lokið störfum hjá Vogue.

Enn hefur enginn verið nefndur sem mögulegur arftaki Roitfeld hjá Vogue en það verður án efa erfitt að fylla það skarð enda er Roitfeld orðin hálfgerð goðsögn innan tískubransans.

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×