Körfubolti

Helgi hafði betur gegn Loga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Már Magnússon.
Helgi Már Magnússon. Mynd/Anton
Helgi Már Magnússon og félagar í Uppsala Basket unnu sinn fyrsta sigur á tímabilinu í sænsku úrvalsdeildinni þegar liðið vann 21 stigs sigur á Loga Gunnarssyni og félögum í Solna Vikings, 90-69.

Helgi Már kom inn af bekknum og var með 2 stig og 6 fráköst á rúmum 24 mínútum. Hann hitti þó ekki vel því aðeins 1 af 9 skotum hans rataði rétta leið. Helgi var einnig með 1 stolinn bolta og 1 varið skot.

Logi Gunnarsson var stigahæstur hjá Solna Vikings með 21 stig og hefur því brotið tuttugu stiga múrinn í fyrstu tveimur leikjum sínum með liðinu. Solna hafði unnið Íslendingaliðið Sundsvall í fyrstu umferð.

Logi lék í rétt tæpar 30 mínútur í leiknum en hann hitti meðal annars úr 5 af 9 þriggja stiga skotum sínum. Logi auk stiganna með 1 frákast, 1 stoðsendingu og 1 stolinn bolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×