Handbolti

Haukar töpuðu með tveimur mörkum á móti Grosswallstadt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freyr Brynjarsson skoraði 6 mörk í kvöld.
Freyr Brynjarsson skoraði 6 mörk í kvöld.
Haukar töpuðu með tveggja marka mun, 26-24, í fyrri leiknum á móti Grosswallstadt í 3. umferð EHF-bikarsins í handbolta en leikið var í Þýskalandi í kvöld. Haukarnir eru því í ágætum málum fyrir seinni leikinn á Ásvöllum um næstu helgi.

Sverre Jakobsson og félagar í Grosswallstadt máttu þakka fyrir sigurinn því Hafnfirðingar spiluðu mjög vel sérstaklega framan af leik.

Haukarnir voru frábærir fyrstu 24 mínútur leiksins og voru í kjölfarið komnir fimm mörkum yfir, 11-6. Grosswallstadt náði að minnka muninn í eitt mark fyrir hálfleik en Haukaliðið var 13-12 yfir í leikhléi.

Grosswallstadt skoraði þrjú fyrstu mörk seinni hálfleiks og komst yfir í 15-13 en liðið var þá búið að skora 9 mörk gegn aðeins tveimur frá Haukum á aðeins tólf mínútna kafla.

Haukarnir gáfust ekki upp og náðu aftur frumkvæðinu. Lokamínúturnar í leiknum voru síðan æsispennandi. Stefan Rafn Sigurmannsson kom Haukum yfir í 21-22 en Grosswallstadt svaraði með tveimur mörkum og komst í 23-22.

Guðmundur Árni Ólafsson jafnaði metin í 23-23 en aftur komst Grosswallstadt yfir í 24-23. Mattias Andersson varði vítakast Guðmundar Árna í næstu sókn og Þjóðverjarnir juku muninn í tvö mörk úr víti hinum megin.

Guðmundur Árni minnkaði muninn í 25-24 en Oliver Köhrmann tryggði Grosswallstadt tveggja marka sigur í síðustu sókn leiksins.

TV Grosswallstadt-Haukar 26-24 (12-13)

Mörk Hauka: Freyr Brynjarsson 6, Guðmundur Árni Ólafsson 6/3, Heimir Óli Heimisson 5, Björgvin Hólmgeirsson 2, Þórður Rafn Guðmundsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 1, Stefán Rafn Sigurmannsson 1, Einar Örn Jonsson 1.

Birkir Ívar Guðmunsson varði 8 skot og Aron Rafn Eðvarðsson varði 6 skot.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×