Lífið

Óvænt niðurgreiðsla skýrslunnar

Þúsund króna niðurgreiðsla frá bóksölum og bókaútgefendum er notuð til að kaupa Rannsóknarskýrsluna þótt útgefandi hennar, Alþingi Íslands, sé ekki meðlimur í þeim hópum.
Þúsund króna niðurgreiðsla frá bóksölum og bókaútgefendum er notuð til að kaupa Rannsóknarskýrsluna þótt útgefandi hennar, Alþingi Íslands, sé ekki meðlimur í þeim hópum.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum er rannsóknarskýrslan mest selda ritið á Íslandi í dag. Óneitanlega er hins vegar komin svolítið sérstök staða upp á bókamarkaðinum. Rannsóknarskýrslan er gefin út af Alþingi sem er auðvitað ekki bókaútgefandi en hins vegar eru þess mýmörg dæmi að fólk noti bókaávísunina sem heimili landsins fengu senda frá Félagi bókaútgefenda og bóksala í þessari viku til að kaupa skýrsluna. Þannig að bókaútgefendur og bóksalar eru farnir að niðurgreiða skýrsluna sem gefin er út af aðila sem tilheyrir hvorugu félaganna.

Kristján Bjarki Jónasson, formaður Félags bókaútgefenda, segir þetta auðvitað svolítið írónískt. Og þótt hann hafi heyrt frá mönnum í bókabransanum að kannski ætti að breyta reglunum þá sé ekkert við þessu að gera.

„Auðvitað er ekkert launungarmál að þetta átak er gert til að örva bóksölu, en þetta er bara algjör tilviljun og ekkert sem við getum gert í," segir Kristján. Hluta af fjárhæðinni sem kemur inn með ávísuninni er síðan varið í styrk fyrir bókasöfn í grunnskólum sem mörg hver eru fjársvelt og geta ekkert keypt af nýlegum bókum.

„Við viljum auðvitað koma í veg fyrir að það myndist þarna fimm ára gat í bókum. Þannig að hið opinbera er í raun að styrkja bókasöfn án þess að vita af því," útskýrir Kristján Bjarki. Hann segist ekki vita í hversu mörgum eintökum skýrslan hafi selst en það ku þó vera nokkur þúsund stykki.- fgg










Fleiri fréttir

Sjá meira


×