„Þetta var mjög flott. Dúndurvörn hjá okkur náði að skapa þetta forskot sem við náðum," sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, eftir stórsigur liðsins í Njarðvík.
„Við spiluðum andskoti vel. Við vorum að djöflast í þeim í vörninni allan tímann og í framhaldi keyrum við mjög vel og náum góðum rispum. Það klárar leikinn," sagði Guðjón í viðtali við nafna sinn Guðmundsson á Stöð 2 Sport. „Við viljum hafa læti og gaman að þessu. Þeir eiga í ákveðnum vandræðum með pósta hjá okkur og við nýttum það frábærlega. Ég var ánægðastur með að við unnum á endanum frákastaeinvígið sem við töpuðum illa í fyrsta leiknum."
Keflavík getur tryggt sér sæti í úrslitunum með sigri í þriðju viðureigninni gegn Njarðvík. Sá leikur verður í Keflavík á sunnudag og stefnir Guðjón að sjálfsögðu á að klára rimmuna þar. „Það er óskastaðan," sagði hann eftir leik.