Körfubolti

Hlynur með á ný en Sundsvall tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson skoraði fimmtán stig í kvöld.
Jakob Örn Sigurðarson skoraði fimmtán stig í kvöld. Mynd/Vilhelm
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson voru báðir með Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld en tókst ekki að koma í veg fyrir sautján stiga tap liðsins á útivelli á móti LF Basket, 94-77.

Jakob var með 15 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar í leiknum en Hlynur Bæringsson skoraði 9 stig og tók 8 fráköst.

Staðan var jöfn eftir fyrsta leikhluta, 20-20 en í stöðunni 30-28 í öðrum leikhluta skildu leiðir. LF Basket vann síðustu fimm mínútur hálfleiksins 16-3 og var fimmtán stigum yfir í hálfleik, 46-31.

Sundsvall skoraði 16 af 20 fyrstu stigum seinni hálfleiks, minnkaði muninn strax niður i þrjú stig (50-47) og komst siðan yfir, 58-57. LF Basket var engu að síður með eins stigs forskot fyrir lokaleikhlutann, 59-58.

Sundsvall náði ekki að fylgja þessum góðum þriðja leikhluta eftir og missti LF Basket aftur frá sér. LF Basket breytti stöðunni úr 59-58 í 77-61 á fyrstu fimm mínútunum í leikhlutanum og lagði með því gruninn að sigrinum.

Hlynur Bæringsson lék á ný með Sundsvall eftir að hafa misst út þrjá leiki vegna meiðsla. Hlynur byrjaði af krafti og var með 7 af 11 fyrstu stigum liðsins í leiknum. Honum tókst þó ekki að ná tvennu eins og í fyrstu þremur leikjum sínum með Sundsvall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×