Meirihluti almennings er fylgjandi því að sakamál verði höfðað á hendur þeim sem gegndu ráðherraembætti í bankahruninu. Áberandi munur er á viðhorfi til málshöfðunar eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar sem Markaðs- og miðlarannsóknir ehf. gerði.
Yfir 60% svarenda sögðust fylgjandi því að höfða beri sakamál fyrir landsdómi gegn fyrrverandi ráðherrunum Árna M. Matthiesen (66,3%), Geir H. Haarde (64,2%) og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur (60,4%).
Nokkuð færri eða 51,8% sögðust fylgjandi því að höfða beri sakamál fyrir landsdómi gegn Björgvin G. Sigurðssyni fyrrverandi viðskiptaráðherra.
Verulegur munur mældist á afstöðu svarenda eftir stuðningi þeirra við stjórnmálaflokka. Þannig voru rétt um þriðjungur sjálfstæðismanna sem sögðust hlynntir málshöfðun gegn einhverjum ráðherranna.
Þá voru um 60% stuðningsmanna Samfylkingarinnar fylgjandi málshöfðun gegn Árna M. Matthiesen og Geir H. Haarde en undir 40% þeirra sögðust fylgjandi málshöfðun gegn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvin G. Sigurðssyni.
Meirihluti Vinstri-grænna og framsóknarmanna er fylgjandi málshöfðun
gegn öllum fyrrverandi ráðherrunum fjórum (á bilinu 63%-81% stuðningsmanna Vinstri-grænna og Framsóknarflokksins sögðust hlynntir málshöfðun).
Þá voru 79% til 93% þeirra sem kváðust styðja aðra stjórnmálaflokka vera fylgjandi málshöfðun gegn ráðherrunum.
Sjá nánari niðurstöður hér.
