Lífið

Lokaþáttur Lost annað kvöld

lost Tvöfaldur lokaþáttur af Lost verður sýndur í Bandaríkjunum á sunnudagskvöld.
lost Tvöfaldur lokaþáttur af Lost verður sýndur í Bandaríkjunum á sunnudagskvöld.

Tvöfaldur, tveggja tíma langur lokaþáttur af Lost verður sýndur í Bandaríkjunum annað kvöld. Þá fá spenntir sjónvarpsáhorfendur loksins úr því skorið hvernig ævintýrið á eyjunni dularfullu endar.

Bretar sjá þáttinn á mánudaginn, á sama tíma og vesturstrandarbúar Bandaríkjanna. Þátturinn verður einnig sýndur á sama tíma á Ítalíu, Spáni, Portúgal, Ísrael, Tyrklandi og Kanada. Hér heima verður lokaþátturinn tvöfaldi sýndur 30. ágúst í Sjónvarpinu, enda hóf þessi sjötta sería göngu sína hérlendis þremur mánuðum síðar en í Bandaríkjunum. Íslenskir Lost-aðdáendur verða því að bíða enn um sinn eftir endalokunum.

Alls hefur 121 Lost-þáttur verið sýndur í Bandaríkjunum og víðar síðan hann hóf göngu sína 2005. Þátturinn fjallar um hóp fólks sem kemst lífs af úr flugslysi eftir að hafa brotlent á eyðieyju. Margir undarlegir atburðir gerast í framhaldi af því.

Þegar Lost var hvað vinsælast horfðu yfir tuttugu milljónir manna á þáttinn í Bandaríkjunum í viku hverri. Sú tala hefur lækkað í tólf milljónir eftir því sem þáttaröðin hefur dregist á langinn. Handritshöfundarnir Damon Lindelof og Charlton Cuse tilkynntu fyrir þremur árum að Lost myndi ljúka göngu sinni í ár og þannig höfðu þeir fastmótaðan tímaramma til að svara eins mörgum spurningum og mögulegt er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×