Handbolti

Zeitz vill láta reka Heiner Brand

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Christian Zeitz.
Christian Zeitz. Nordic Photos / Bongarts

Christian Zeitz er allt annað en sáttur við Heiner Brand, þjálfara þýska landsliðsins í handbolta, og vill losna við hann úr starfi.

Zeitz hefur verið út í kuldanum hjá Brand og á sá fyrrnefndi ekki von á því að verða aftur valinn í landsliðið á meðan Brand er við stjórnvölinn.

„Kannski ætti frekar að íhuga að skipta um landsliðsþjálfara," sagði Zeitz við þýska fjölmiðla um helgina.

„Eftir Ólympíuleikana árið 2008 hef ég ekki verið í neinu sambandi við Brand. Ég á ekki von á að það breytist."

Þess má geta að Zeitz var settur út úr liðinu á Ólympíuleikunum í Peking er hann braut illa á Snorra Steini Guðjónssyni í leik gegn íslenska landsliðinu.

Zeitz er 29 ára gamall og á að baki 166 landsleiki. Hann varð heimsmeistari með Þýskalandi árið 2007 og Evrópumeistari árið 2004.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×