Golf

Tinna í fjórða sæti á Opna finnska golfmótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tinna Jóhannsdóttir úr Keili stóð sig vel í Finnlandi.
Tinna Jóhannsdóttir úr Keili stóð sig vel í Finnlandi. Mynd/Daníel

Íslandsmeistarinn Tinna Jóhannsdóttir úr Keili varð í fjórða sæti á opna finnska áhugameistaramótinu í golfi sem lauk í dag í Helsinki. Tinna var ein af fjórum íslenskum keppendum á mótinu.

Tinna lék lokahringinn á 75 höggum eða fjórum höggum yfir pari og varð samtals á tíu höggum yfir pari í mótinu. Hún fékk skramba á lokaholunni og hefði getað náð þriðja sætinu í mótinu.

Tinna var aðeins tveimur höggum á eftir efsta kylfingi þegar lokahringurinn var hálfnaður og hefði með smá heppni getað barist um sigurinn.

Ólafur Björn Loftsson úr Nesklúbbnum náði bestu árangri íslensku karlanna í mótinu en hann lenti í 24. sæti á samtals fimm höggum yfir pari eftir að hafa leikið lokahringinn á 73 höggum eða tveimur höggum yfir pari.

Alfreð Brynjar Kristinsson úr GKG náði sér ekki á strik í dag og lék á 81 höggum í dag og varð í 36. sæti á 11 höggum yfir pari.

Árangur íslensku kylfinganna á opna finnska golfmótinu:

Karlar:

24. sæti Ólafur Björn Loftsson NK +5 (72-73-73)

36. sæti Alfreð Brynjar Kristinsson GKG +11 (71-73-81)

Konur:

4. sæti Tinna Jóhannsdóttir GK +8 (72-76-73)

Þessi lentu í niðurskurðinum:

Guðrún Pétursdóttir GR

Sigurþór Jónsson GK






Fleiri fréttir

Sjá meira


×