Lífið

Spánverjar völdu FM Belfast

Útvarpshlustendur á Spáni völdu FM Belfast til að spila í Madríd.
Útvarpshlustendur á Spáni völdu FM Belfast til að spila í Madríd.

„Miðað við hvað gekk ótrúlega vel á tónleikunum á Eurosonic og hvað var mikil stemning þá kom þetta ekkert ótrúlega mikið á óvart," segir hinn skeleggi Árni Vilhjálmsson úr hljómsveitinni FM Belfast.

FM Belfast kom fram á tónlistarhátíðinni Eurosonic í Hollandi í janúar. Hljómsveitin var í kjölfarið valin ein af tíu athyglisverðustu hljómsveitum hátíðarinnar. Lög með hljómsveitunum tíu voru í framhaldinu send í samkeppni á Spáni þar sem hlustendur Radio 3 völdu þrjár hljómsveitir til að koma fram á European Music Festival Day í Madríd. Það er skemmst frá því að segja að hlustendurnir kolféllu fyrir laginu Underwear með FM Belfast og hljómsveitin því ein af þeim sem kemur fram á hátíðinni.

„Ég hef komið til Barcelona og það er ein uppáhaldsborgin mín í öllum heiminum. Hátíðin er í Madríd og við hlökkum til að fara í sólar- og mangólykt," segir Árni. FM Belfast spilar á fjölmörgum tónleikum í sumar og kemur meðal annars fram á Hróarskelduhátíðinni víðfrægu í Danmörku. „Þetta er skemmtileg viðbót í dagskrána. Við erum alveg pínu stressuð yfir öllum tónleikunum sem eru fram undan í sumar, en samt ótrúlega glöð yfir því."

Íslendingum gefst kostur á að sjá FM Belfast á tónleikum á Nasa á morgun ásamt Retro Stefson. Árni lofar því að sex ný lög fái að hljóma. Forsala fer fram á Midi.is. Hljómsveitin kemur einnig fram á Græna hattinum á laugardaginn. - afb














Fleiri fréttir

Sjá meira


×