Golf

Tíunda tækifæri Mickelson á árinu til að taka toppsætið af Tiger

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Mickelson.
Phil Mickelson. Mynd/AP
Phil Mickelson og Steve Stricker eiga báðir möguleika á því að taka toppsæti heimslistans í golfi af Tiger Woods þegar Deutsche Bank mótinu lýkur í kvöld. Þetta verður í tíunda sinn á árinu sem Mickelson fær tækifæri til að ná í efsta sætið í fyrsta sinn á ferlinum.

Tiger Woods hefur verið í efsta sæti heimslistans síðan 12. júní 2005 (273 vikur) en hann er í 23. sætinu á Deutsche Bank mótinu fyrir lokadaginn. Mickelson er í öðru sæti á heimslistanum og Stricker er í 4. sæti. Þeir eru báðir meðal efstu manna á mótinu, Stricker í fjórða sæti og Mickelson í því sjötta.

Phil Mickelson og Steve Stricker geta báðir farið í efsta sæti með sigri á mótinu svo framarlega sem Tiger nái ekki að bæta sína slæmu stöðu verulega.

Mickelson fer á toppinn ef hann vinnur mótið, eða með því að ná öðru sæti og Tiger er ekki meðal efstu þriggja, eða ef hann endar í 3. sæti og Woods er ekki meðal níu efstu og svo loks ef hann er í fjórða sæti, Tiger nær ekki einu af 24 efstu sætunum og Stricker vinnur ekki mótið.

Stricker þarf hinsvegar að vinna mótið og vonast eftir því að Mickelson verði í 4. sæti eða neðar og Woods komist ekki meðal níu efstu. Lokahringurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport frá klukkan sjö í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×