Lífið

Jarmusch djammaði með Íslendingum

Föngulegur hópur Jim Jarmusch kynntist reykvísku næturlífi með aðstoð valinkunnra einstaklinga á borð við Friðrik Þór Friðriksson og Kolfinnu Baldvinsdóttur.
Föngulegur hópur Jim Jarmusch kynntist reykvísku næturlífi með aðstoð valinkunnra einstaklinga á borð við Friðrik Þór Friðriksson og Kolfinnu Baldvinsdóttur.

Bandaríski leikstjórinn Jim Jarmusch, heiðursgestur Riff-hátíðarinnar, var í miklu stuði er hann sat fyrir svörum í Háskólabíói á fimmtudagskvöld. Þar hermdi hann eftir ítalska leikaranum Roberto Benigni og bandaríska rapparanum RZA við mikil hlátrasköll.

Að því loknu fór Jarmusch á Kaffibarinn í rokkabillípartí og því næst lá leið hans á Boston. Með í för var fólk með ágæta reynslu úr íslensku skemmtanalífi: þau Krummi í Mínus, Kolfinna Baldvinsdóttir og Friðrik Þór Friðriksson leikstjóri. Einnig var með í för Wendy Mitchell, blaðamaður bandarísku kvikmyndasíðunnar Screendaily.com. Kvöldið endaði svo á Bakkusi, þar sem meðlimir Sigur Rósar skemmtu sér með Jarmusch langt fram á nótt.

Áður en spurningaflóðið í Háskólabíói hófst hittust erlendir kvikmyndagerðarmenn og blaðamenn í Sjóminjasafninu þar sem plokkfiskur var í boði sem Jarmusch fúlsaði við, enda grænmetis­æta.

Í staðinn saddi hann sárasta hungrið með hnausþykkum Guinness-bjór síðar um kvöldið.

Leikstjórinn ræddi næsta verkefni sitt, heimildarmynd um hljómsveitina The Stooges, sem spilaði einmitt í Hafnarhúsinu fyrir fjórum árum. Jarmusch er búinn að taka upp sjö klukkutíma af viðtölum við forsprakkann Iggy Pop en sveitin er í miklu uppáhaldi hjá honum.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×