Skoðun

Svavar Gestsson: Alþingi eignist þjóðhagsstofnun

Svavar Gestsson skrifar
Ekki hafa komið fram sannfærandi rök fyrir því að hafa enga þjóðhagsstofnun. Margt bendir reyndar til þess að það hafi verið mistök að leggja stofnunina niður.

Þjóðhagsstofnun varð til upp úr efnahagsstofnun fyrir margt löngu og sú stofnun var eitt af flaggskipum viðreisnarstjórnarinnar. Þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður var verkefnum hennar dreift á margar aðrar stofnanir. Það hefur ekki gefist vel.

Þegar Þjóðhagsstofnun var starfrækt þá var hún undir forsætisráðuneytinu. Það fyrirkomulag byggðist á því að þá voru öll efnahagsmálin undir forsætisráðuneytinu fyrir utan það sem tilheyrði fjármálaráðuneytinu og svo lengi viðskiptaráðuneytinu. Þetta fyrirkomulag gafst stundum vel, stundum miður. Þjóðhagsstofnun naut þess reyndar að hafa jafnan öfluga forstöðumenn eins og Jón Sigurðsson, Ólaf Davíðsson og Þórð Friðjónsson. Allir þeir sem sinnt hafa stjórnmálum kannast við að hafa verið óánægðir með niðurstöður stofnunarinnar og afskipti af málum. Engum datt þó í hug að leggja stofnunina niður; margir vildu hins vegar bæta hana.

Oft var reynt að nota stofnunina í pólitískum þrætum til dæmis við stjórnarmyndanir. Og oft lét stofnunin nota sig að mínu mati. En allir voru sammála um nauðsyn þess að hafa stofnunina.

Fyrir margt löngu var Ríkisendurskoðun undir fjármálaráðuneytinu. Samstaða náðist um að breyta því og setja stofnunina undir Alþingi. Það hefur gefist vel að öðru leyti en því að Alþingi hefur ekki lengur neina þingkjörna yfirskoðunarmenn ríkisreikninga; það er slæmt.

En fordæmið með Ríkisendurskoðun sýnir að það er og getur verið skynsamlegt að slík stofnun sé beint undir Alþingi. Þess vegna er það mín skoðun að Þjóðhagsstofnun eigi að endurreisa og hana eigi að leggja undir Alþingi. Þjóðhagsstofnun yrði þá óháð ríkisstjórninni. Slík stofnun þarf að verða til og það fyrr en seinna.




Skoðun

Sjá meira


×