Sport

Jakob og Hlynur fóru á kostum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur Bæringsson í leik með Snæfelli á síðustu leiktíð.
Hlynur Bæringsson í leik með Snæfelli á síðustu leiktíð. Mynd/Stefán
Allir fjórir Íslendingarnir í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta voru í eldlínunni með sínum liðum í kvöld.

Sundsvall vann góðan sigur á Örebro á útivelli, 99-89. Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson fóru á kostum í leiknum og skoruðu samanlagt 37 stig.

Hlynur skoraði alls átján stig og tók þar að auki tólf fráköst, langflest í sínu liði. Hann átti einnig fjórar stoðsendingar. Hann var með glæsilega skotnýtingu; 3/4 í 2ja stiga skotum og 2/3 í þriggja stiga.

Jakob skilaði einnig flottum tölum. Hann skoraði nítján stig, gaf átta stoðsendingar og tók fimm fráköst.

Þá skoraði Logi Gunnarsson átján stig fyrir Solna í í kvöld en það dugði ekki til gegn Helga Má Magnússyni og félögum í Uppsala. Lokatölur voru 72-67, Uppsala í vil.

Logi lék í alls 28 mínútur í leiknum og hitti úr sjö af tólf 2ja stiga skotum sínum. Hann nýtti einnig annað tveggja 3ja stiga skota sinna.

Helgi Már var á meðal stigahæstu manna Uppsala og skoraði tólf stig auk þess sem hann tók sex fráköst, flest allra í sínu liði. Hann setti niður tvo þrista í leiknum.

Sundsvall er í fjórða sæti deildarinnar með tólf stig, rétt eins og Uppsala sem er í fimmta sæti. Solna er hins vegar í sjöunda sæti með átta stig. Södertälje er á toppnum með átján stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×