Handbolti

Ísland hékk í Dönum í 45 mínútur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hanna G. Stefánsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Hanna G. Stefánsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta átt í dag mun betri leik en í gær á æfingamótinu í Noregi.

Ísland tapaði fyrir Dönum, 30-24, eftir að staðan var jöfn í hálfleik, 15-15.

Danir byrjuðu betur í leiknum og voru með undirtökin framan af. Íslensku stelpurnar náðu þó að hanga í þeim dönsku og komast yfir þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, 13-12.

Jafnt var á nánast öllum tölum fyrstu fimmtán mínúturnar í síðari hálfleik. Ísland var yfir, 19-18, en þá skoruðu Danir fjögur mörk í röð og létu forystuna aldrei af hendi eftir það.

Síðustu tíu mínúturnar reyndust Íslandi erfiðar og því sex marka sigur Dana helst til stór miðað við gang leiksins.

Leikurinn í dag hefur verið mun betri en gegn Norðmönnum í gær sem tapaðist með 21 marki.

Ísland mætir Serbíu í lokaumferð mótsins á morgun. Danir slátruðu Serbum í gær, 34-21, og miðað við þau úrslit ættu Íslendingar að eiga góðan möguleika í leiknum á morgun.

Rut Jónsdóttir var valinn maður leiksins á heimasíðu norska handknattleikssambandsins en hún skoraði fjögur mörk í leiknum. Karen Knútsdóttir var markahæst með fimm mörk.

Mörk Íslands: Karen Knútsdóttir 5, Rut Jónsdóttir 4, Hrafnhildur Ósk Skúladóttir 4, Harpa Sif Eyjólfsdóttir 3, Ásta Birna Gunnarsdóttir 2, Hanna G. Stefánsdóttir 2, Sólveig Lára Kjærnested 1.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×