Handbolti

Snorri Steinn: Stemningin eins og í Þýskalandi

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Fréttablaðið
Danska ofurfélagið AG Köbenhavn, með þá Snorra Stein Guðjónsson og fyrirliðann Arnór Atlason innanborðs, fór vel af stað í dönsku úrvalsdeildinni um helgina.

Það lagði ríkjandi meistara í AaB 29-25 þar sem Arnór skoraði eitt mark en Snorri var á meðal bestu manna vallarins. Hann skoraði sjö mörk.

Félaginu hefur verið líkt við Galactico-stefnu Real Madrid, að kaupa alla þá bestu sama hvað þeir kosta. Pressan á liðinu er mikil en á meðal þeirra sem liðið fékk í sumar voru Kasper Hvidt, Joachim Boldsen og Mikkel Hansen.

Um 6200 áhorfendur mættu á leikinn og Snorri segir að stemningin hafi verið eins og í þýsku úrvalsdeildinni. „Það var klikkuð stemning í höllinni. Það sem Jesper Nielsen er að gera með félagið er einsdæmi og hann er að ná umgjörðinni í nýjar hæðir. Stemningin var bara eins og í þýsku úrvalsdeildinni," segir Snorri en liðið vekur gríðarlega athygli í Kaupmannahöfn, og víðar.

„Við erum gríðarlega mikið í fjölmiðlum. Við Arnór sleppum reyndar mikið við það, fjölmiðlarnir vilja tala við dönsku stjörnurnar frekar. En við þurfum að vera í fjölmiðlunum, það fylgir þessu og félagið vill fá alla athygli sem það getur. Þetta er markviss vinna hjá klúbbnum að sækja í blöðin."

Pressan á liðinu er líka mikil, með allar stórstjörnurnar og peningana sem hafa farið í félagið. „Ég vissi af henni þegar ég kom. Það er eðlilegt miðað við hvernig liðið er á pappírunum og markmiðin sem félagið gefur út. Það var mikilvægt að byrja mótið vel og það gekk upp. Við erum með gríðarlega sterkt lið og það var gott að vinna einn af okkar helstu keppinautum um titilinn," segir Snorri sem er búinn að koma sér vel fyrir í Kaupmannahöfn.

„Okkur líður mjög vel hérna. Við búum rétt hjá Arnóri og ég er bara rosalega ánægður. Kaupmannahöfn er frábær borg og mér líður bara hrikalega vel," segir landsliðsmaðurinn Snorri Steinn Guðjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×