Um 500 manns bíða í Boston í Bandaríkjunum eftir því að ná flugi til Íslands. Eldgosið á Fimmvörðuhálsi og lokun flugvalla hefur valdið mikilli truflun á flugi Icelandair.
Eins og kom fram á Vísi í nótt var áætlunarflugvélum félagins frá Seattle og Orlando í Bandaríkjunum sem lenda áttu á Keflavíkurflugvelli í morgun beint til Boston. Jafnframt var áætlunarfluginu frá Boston frestað. Vélarnar munu leggja af stað klukkan þrjú að íslenskum tíma og er koma áætluð kl. 19.30 síðdegis.
Samkvæmt áætlun áttu að fara sex flug frá Keflavíkurflugvelli til Evrópuborga í morgun, þ.e. til Kaupmannahafnar, Osló, Stokkhólms, London, Amsterdam og Frankfurt. Farþegar í þessum flugum eru samtals um 800. Brottför þessara fluga hefur verið frestað til klukkan 11.00, en flugið til Osló hefur verið fellt niður og reynt að koma farþegum þangað um aðra áfangastaði.
Mikil seinkun verður á flugi félagsins síðar í dag og óvíst hvenær flug Icelandair verður komið á áætlun á ný. Ljóst er að það næst ekki áður en áhrifa frá boðuðu verkfalli flugvirkja, sem hefst kl.01 eftir miðnætti, fer að gæta.
Farþegar eru hvattir til þess að fylgjast með komu- og brottfarartímum á textavarpi og vefsíðum.