Handbolti

Júlíus: Ekki draumariðillinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Júlíus Jónasson landsliðsþjálfari.
Júlíus Jónasson landsliðsþjálfari. Mynd/Anton
Júlíus Jónasson, landsliðsþjálfari í handbolta, hafði blendnar tilfinningar gagnvart riðlinum sem Ísland keppir í á EM í handbolta í desember næstkomandi.

Dregið var í riðlana fjóra en alls keppa sextán þjóðir í lokakeppninni. Sama fyrirkomulag er á keppninni og á EM karla, þar sem þrjú lið komast úr hverjum riðli í milliriðla og tvö efstu liðin úr hvorum riðli komast í undanúrslit.

„Já, ég er ekki viss. Við fyrstu sýn er þetta alla vega ekki það sem ég óskaði mér," sagði Júlíus. „Minn draumadráttur var að við myndum lenda í riðli með Þýskalandi, Danmörku og Svíþjóð."

Ísland er í riðli með Svartfjallalandi, Króatíu og heimsmeistaraliði Rússlands.

„Það má í raun segja að við erum að fá austurblokkina eins og hún leggur sig," sagði hann í léttum dúr.

Júlíus sagði helsta vandamálið vera að hann þekkti lítið til liða Svartfellinga og Króata.

„Ég hef séð til flestra liða sem eru að spila á EM nema þessara tveggja. Við þurfum því að nýta tímann vel fram að móti og afla okkur upplýsinga um liðin."

„Þetta er vissulega enginn draumadráttur en þetta eru úrslit á EM og við erum í fjórða styrkleikaflokki. Svo getur vel verið að þetta verði hið besta mál þegar uppi er staðið."

„Það er alveg ljóst að markmið okkar verður að komast áfram í milliriðil. Við erum búin að afreka það að komast á þetta mót og þetta verður því engin túristaferð. Við munum setja okkur alvöru markmið."

Ísland og Svartfjallaland eru einu liðin á EM sem ekki hafa áður komist í lokakeppnina. Króatar hafa aldrei komist á verðlaunapall á stórmóti og urðu í sjötta sæti á síðasta EM.

Rússland hefur fjórum sinnum orðið heimsmeistari og fengið eitt silfur og tvenn bronsverðlaun á Evrópumeistaramótum. Þá vann liðið til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×