Handbolti

Einar: Væri rosalega svekkjandi ef þessu yrði frestað

Elvar Geir Magnússon skrifar
Einar ásamt Ólafi Guðmundssyni á blaðamannafundi í dag. Mynd/Vilhelm
Einar ásamt Ólafi Guðmundssyni á blaðamannafundi í dag. Mynd/Vilhelm

Óvissa ríkir um hvort riðlakeppni Evrópumóts U20 landsliða í handbolta geti farið fram um helgina vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Leika átti mótið í Laugardalshöllinni milli A-landsleikja Íslands og Frakklands.

Landslið frá Serbíu, Svartfjallalandi og Makedóníu voru væntanleg hingað til lands í dag og áttu fyrstu leikir að fara fram á morgun. Liðin eru hinsvegar föst á flugvellinum í Kaupmannahöfn.

„Það væri rosalega svekkjandi ef við myndum ekki fá að spila þetta hérna," segir Einar Guðmundsson, þjálfari U20 landsliðsins. Beðið er frétta en möguleiki er á að tvær umferðir færu fram á laugardeginum.

„Við gætum alveg spilað tvo leiki á laugardaginn, um morguninn og svo um kvöldið. Ég veit ekki hvað gert verður. Strákarnir eru mjög svekktir því það er fókus á þetta. A-landsliðið er að spila líka og það á að vera handboltahátíð. Strákarnir vilja fá að sýna sig."

Íslenska liðið æfir eins og ekkert hafi í skorist. „Við göngum bara út frá því að við séum að fara að spila á morgun. Við æfum samkvæmt því og breytum engu í okkar undirbúningi. Ég læt strákana ekkert hugsa út í þetta," segir Einar.

En ef mótið getur ekki farið fram um helgina, hvað verður þá gert? „Ég veit ekkert hvað verður gert. Kannski verður spilað hér á landi í maí eða kannski þurfum við að keppa þennan riðil úti síðar," segir Einar Guðmundsson.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×