Handbolti

Alex var erfiður en það þarf fleiri en einn mann til þess að klára okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. Mynd/AFP
Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik á lokakaflanum þegar Kadetten vann 24-21 sigur á Alexander Petersson og félögum Flensburg í seinni leik liðanna í undanúrslitum EHF-bikarsins í gær. Alexander náði að skora fimm sinnum hjá Björgvini en íslenski landsliðsmarkvörðurinn fékk aðeins þrjú mörk á síg á síðustu tuttugu mínútum leiksins.

„Það gekk allt í lagi með Alex í þessum leik en hann var að mínu mati þeirra besti maður þeirra í þessu einvígi. Sem betur fer sat hann einhvern hluta á bekknum," sagði Björgvin um félaga sinn í landsliðinu.

„Eins og hann sýndi í fyrri hálfleiknum í fyrri leiknum þá má segja að hann hafi bjargað þeim frá tapi í Flensburg. Hann kom þeim inn í leikinn í Flensburg og var kannski ástæðan fyrir því að við fórum ekki þaðan með þrjú mörk i plús. Hann var erfiður en það þarf fleiri en einn leikmann til þess að klára okkur," sagði Björgvin sem skilur ekkert í því af hverju Flensburg vill ekki nota Alex.

„Það er fáránlegt að þessi maður sé að fara frá félaginu og sé búinn að spila svona lítið. Það er stórfurðulegt enda er hann einn af þessum mönnum sem ég myndi velja ef að ég ætti að velja heimsliðið mitt. Ég myndi velja hann með þeim fyrstu," sagði Björgvin en það má finna viðtal við Björgvin í Fréttablaðinu á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×