Körfubolti

Bryndís: Þessi sigur mun hjálpa okkur mikið í stigatöflunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bryndís Guðmundsdóttir á ferðinni í leiknum á móti Haukum í kvöld.
Bryndís Guðmundsdóttir á ferðinni í leiknum á móti Haukum í kvöld. Mynd/Stefán
Bryndís Guðmundsdóttir átti flottan leik með Keflavík þegar liðið vann 68-67 sigur á Haukum í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Bryndís var með 18 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar en hún spilaði allar 40 mínúturnar í leiknum.

„Við vorum aðeins værukærar í seinni hálfleiknum og við spiluðum ekki vel í honum. Það var einhver spenna í okkur en það var mjög sterkt að klára leikinn og þessi sigur mun hjálpa okkur mikið í stigatöflunni," sagði Bryndís eftir leikinn.

„Við hugsuðum um það við ætluðum að spila góða vörn og vinna. Við spiluðum frábæra vörn í fyrri hálfleik en við náðum ekki að fylgja því eftir í seinni hálfleik," sagði Bryndís og munaði þar miklu um að Heather Ezell losnaði úr gæslunni og skoraði 21 stig í seinni hálfleik eftir að hafa skoraði aðeins sex stig í fyrri hálfeik. "Við lögðum mikla áherslu á að stoppa Heather og mér fannst það ganga vel á köflum. Hún er samt frábær leikmaður," sagði Bryndís.

Keflavík hefur unnið 3 af 4 leikjum síðan að Bryndís fékk leikheimild og hún er í mjög stóru hlutverki hjá liðinu. „Mér finnst ég verða betri og betri með tímanum. Það er erfitt að tapa fjórum leikjum í röð og sérstaklega þegar maður getur ekki verið með og situr á bekknum," sagði Bryndís.

Bryndís segir að stelpurnar í liðinu séu farnar að brosa á ný. „Við höfðum ekkert gaman að þessu fyrstu fjóra leikina og þá vinnur maður ekki leiki," sagði Bryndís en hún er líka mjög ánægð með nýja bandaríska leikmann liðsins, Kristi Smith sem var með 19 stig í kvöld.

„Mér finnst hún góð og hún er að standa sig betur en hin. Hún er þó enn að læra inn á okkur en þetta er allt á góðri leið," sagði Bryndís að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×