Körfubolti

Spænska undrabarnið Ricky Rubio ætlar í nýliðavalið í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ricky Rubio í leik með spænska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking.
Ricky Rubio í leik með spænska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking. Mynd/GettyImages

Spænski körfuboltamaðurinn Ricky Rubio hefur ákveðið að gefa kost á sér í nýliðaval NBA-deildarinnar sem fer fram 25. júní. Ricky Rubio er á samningi hjá spænska liðinu DKV Joventut til ársins 2011 en hann er aðeins 18 ára gamall.

Það er líklegt að Ricky Rubio verði valinn snemma í nýliðavalinu enda með efnilegri evrópskum bakvörðum sem hafa komið fram lengi. Ricky Rubio var í flottu hlutverki hjá spænska landsliðinu sem vann silfurverðlaun á síðustu Ólympíuleikum.

Ricky Rubio er 192 sm leikstjórnandi sem var með 9,9 stig og 5,7 stoðsendingar að meðaltali með DKV Joventut á þessu tímabili. Hann verður 19 ára í október og nær því aldurslágmörkunum inn í NBA-deildina.

Rubio hefur það inn í samningi sínum við Joventut að það sé hægt að kaupa upp samninginn fyrir 7,8 milljónir dollara sem gefur NBA-liðum tækifæri til að fá hann til sín strax næsta haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×