Sjálfstæðisflokkurinn fengi einungis tvo kjördæmakjörna þingmenn í Reykjavíkurkjördæmi norður, samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Ríkisútvarpið. Einungis þrír flokkar fengu kjördæmakjörna þingmenn. O - listi Borgarahreyfingarinnar fær 8,1%, en það nægir samt ekki til að hreyfingin komi manni á þing.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar 14,4 prósentustigum frá kosningunum, fer úr 36,4% í 22%. Ef þetta yrðu úrslit kosninganna myndi flokkurinn tapa tveimur þingmönnum frá kosningunum og fengi tvo, þá Illuga Gunnarsson og Pétur Blöndal, en hvorki Sigurður Kári Kristjánsson né Ásta Möller kæmust á þing sem kjördæmakjörnir þingmenn.
Samfylkingin fær stuðning 34,3% og bætir við sig 5,1 prósentustigi frá kosningunum og einum manni. Vinstri hreyfingin-grænt framboð bætir við sig heilum 12,2 prósentustigum og fær 29,1% í könnuninni. Vinstri-græn fengju þrjá þingmenn og bættu við sig einum manni.
Niðurstöðurnar eru úr net- og símakönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 8. til 13. apríl 2009. Úrtakið í netkönnuninni var tilviljunarúrtak úr Viðhorfahópi Capacent Gallup en úrtakið í símakönnuninni var tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Heildarúrtaksstærð var 800 manns 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 60,5%.
Vikmörk fyrir fylgi Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eru 4,8% en vikmörk fyrir Sjálfstæðisflokkinn 4,2%.
