Körfubolti

Spánverjar sluppu með skrekkinn og Frakkar unnu Evrópumeistarana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronny Turiaf hefur spilað vel fyrir Frakka á EM.
Ronny Turiaf hefur spilað vel fyrir Frakka á EM. Mynd/AFP

Spánverjar þurftu framlengingu til að vinna 90-84 sigur á Slóvenum á lokadegi riðlakeppni Evrópumótsins í körfubolta í Póllandi í gær. Frakkar unnu 69-64 sigur á Evrópumeisturum Rússa og Lettar voru aðeins sekúndum frá því að komast áfram í milliriðil.

Juan Carlos Navarro skoraði 21 stig í 90-84 sigri Spánverja á Slóvenum en það þurfti að framlengja leikinn. Rudy Fernandez,leikmaður Portland, skoraði 19 stig. Pau Gasol var með 13 stig og 9 fráköst. Slóvenía, Serbía og Spánn voru öll jöfn að stigum í C-riðli eftir að hafa unnið hvert annað og komast áfram í milliriðil en Bretland sat eftir.

Ronny Turiaf, leikmaður Golden State Warriors, var með 18 stig og 14 fráköst fyrir Frakka í 69-64 sigri á Evrópumeisturum Rússa og Tony Parker, leikmaður Sam Antonio Spurs, skoraði 17 stig. Rússar eru án lykilmanna sem hjálpuðu þeim að vinna titilinn fyrir tveimur árum en þeir komust í milliriðil þrátt fyrir tapið.

Frakkar unnu alla sína leiki í B-riðli og unnu riðilinn örugglega. Hin þrjú liðin voru jöfn að stigum og þar réðst lokastaðan á innbyrðisviðureignum. Lettar voru með 11 stiga forskot á móti Þjóðverjum þegar 22 sekúndur voru eftir og höfðu komist áfram með þeim úrslitum. Jan Jagla skoraði fimm stig fyrir Þýskaland á þessum lokasekúndum og tryggði sínum mönnum sæti í milliriðli á kostnað Letta.

Grikkir unnu alla sína leiki í A-riðli og komast í milliriðil ásamt Króötum og Makedóníu en Ísraelar sátu eftir. Tyrkir unnu alla sína leiki í D-riðli og komust í milliriðil ásamt Póllandi og Litháen en Búlgarar sátur eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×