Virkisborgin Ísland 20. október 2009 06:00 Frá árinu 1996 og til ársloka 2008 sóttu rúmlega 650 einstaklingar um hæli á Íslandi. Þar af dró rúmlega fjórðungur umsóknir sínar til baka eða hvarf af landi brott. Íslensk stjórnvöld hafa því einungis þurft að afgreiða um fjörutíu umsóknir um hæli á ári að meðaltali undanfarin tólf ár - vissulega nokkru fleiri á síðustu árum. Þrátt fyrir það virðast þau veigra sér við það verk því að einungis tæpur helmingur þessara umsækjenda fékk efnislega meðferð á málefnalegum forsendum. Hinir voru sendir úr landi á grundvelli svo kallaðrar „Dyflinnarreglu" sem ætlað er að koma í veg fyrir að einn einstaklingur geti átt umsóknir í mörgum ríkjum samtímis. Í henni felst engin skylda heldur heimild til stjórnvalda á hverjum stað til að skjóta sér undan því að meðhöndla umsóknir hælisleitenda efnislega heldur senda þá þess í stað til annars lands á Schengen-svæðinu. Þess eru fá dæmi að hælisleitendur hafi verið sendir til Íslands frá öðrum löndum á grundvelli þessarar reglu - umferðin hefur verið í hina áttina. Aðalatriðið er þó að íslensk stjórnvöld eru ekki neydd til neins á grundvelli Dyflinnarreglunnar. Þegar vitnað er í hana er einungis verið að víkja sér undan alvarlegum spurningum um hvers vegna Útlendingastofnun treystir sér ekki til að meðhöndla mál allra hælisleitenda á Íslandi efnislega í ljósi þess hversu fáir þeir eru. Meðferð hælisleitenda er ekki tæknilegt úrlausnarefni heldur hápólitískt mál. Því var þess lítil von að mikil breyting yrði í stefnu Íslands gagnvart hælisleitendum á þessu tímabili þar sem sami flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, fór með dómsmálaráðuneytið í átján ár samfleytt. Á hinn bóginn urðu tímamót þegar mynduð var vinstri stjórn á Íslandi 1. febrúar sl. og sú stjórn vann svo þingmeirihluta í alþingiskosningum 25. apríl sl. Þau úrslit mætti skilja sem vísbendingu um breyttan vilja þjóðarinnar, í þessum málaflokki sem öðrum. Hin nýja ríkisstjórn setti enda breytingar í þessum málaflokki á oddinn þar sem í stjórnarsáttmála segir að „lög um hælisleitendur verði endurskoðuð" og með nafnbreytingu á dómsmálaráðuneyti í mannréttindaráðuneyti var gefið í skyn að virðing fyrir manneskjunni yrði hér eftir sett í öndvegi. Það er erfitt að rökstyðja að það sé sérstakt framlag til mannréttinda að halda áfram að senda helming hælisleitenda úr landi án þess að taka mál þeirra fyrir efnislega. Það er eigi að síður það sem hin nýja vinstri stjórn hefur gert. Steininn tók þó úr í seinustu viku þegar þrír hælisleitendur frá Írak og Afganistan fengu þessa snautlegu meðferð. Það dylst þó engum hvílíkt skelfingarástand er ríkjandi í þessum löndum. Þar að auki bera íslensk stjórnvöld ríka ábyrgð á því ástandi, hafandi stutt við bakið á innrásunum sem leitt hafa ómælda hörmung yfir Írak og Afganistan. Ekkert er síður sæmandi en að reka fólk frá þessum tveimur löndum frá Íslandi án þess að taka mál þess fyrir. Þessi vinnubrögð eru nákvæmlega eins og þau sem ríkt hafa undir fyrri hægri stjórnum og voru þá harðlega gagnrýnd af vinstrisinnuðum stjórnarandstæðingum. Þau ómerkja þar að auki fullkomlega hina nýlegu nafnbreytingu dómsmálaráðuneytisins og afhjúpa hana sem hræsnisfullt froðusnakk. Við stofnun vinstri stjórnar voru þau nýmæli viðhöfð innan framkvæmdarvaldsins að tvö ráðuneyti voru falin ópólitískum ráðherrum og átti að vera til marks um aukna fagmennsku innan stjórnsýslunnar. Þessir ráðherrar bera eftir sem áður pólitíska ábyrgð og sitja í skjóli sama þingmeirihluta og aðrir ráðherrar. Dómsmálaráðherra hefur sömu pólitísku skyldur við almenning og þeir ráðherrar sem eru þjóðkjörnir alþingismenn og sækir umboð sitt til flokkanna sem mynda þingmeirihlutann. Eru þessir flokkar, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin-grænt framboð, sáttir við að vinnubrögð gagnvart hælisleitendum hafi ekkert breyst við valdatöku þeirra? Reka þessir flokkar sömu stefnu gagnvart þeim og sjálfstæðismennirnir sem áður voru gagnrýndir af þeim? Kjarni málsins er þó sá að það virðingarleysi sem hælisleitendum er sýnt á Íslandi er hvorki góð fagmennska né góð pólitík. Þjóðarbúið hefur vissulega tekið ýmsar dýfur að undanförnu en oft hefur ræst betur úr en á horfðist og Íslendingar eru svo sannarlega enn þá í hópi ríkustu þjóða heims í efnahagslegu tilliti. Þjóð sem ekki ræður við að taka árlega við fjörutíu manneskjum sem biðja hér um hæli skortir ekki peninga heldur gott hjartalag. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sverrir Jakobsson Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sertral eða sálfræðimeðferð Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun
Frá árinu 1996 og til ársloka 2008 sóttu rúmlega 650 einstaklingar um hæli á Íslandi. Þar af dró rúmlega fjórðungur umsóknir sínar til baka eða hvarf af landi brott. Íslensk stjórnvöld hafa því einungis þurft að afgreiða um fjörutíu umsóknir um hæli á ári að meðaltali undanfarin tólf ár - vissulega nokkru fleiri á síðustu árum. Þrátt fyrir það virðast þau veigra sér við það verk því að einungis tæpur helmingur þessara umsækjenda fékk efnislega meðferð á málefnalegum forsendum. Hinir voru sendir úr landi á grundvelli svo kallaðrar „Dyflinnarreglu" sem ætlað er að koma í veg fyrir að einn einstaklingur geti átt umsóknir í mörgum ríkjum samtímis. Í henni felst engin skylda heldur heimild til stjórnvalda á hverjum stað til að skjóta sér undan því að meðhöndla umsóknir hælisleitenda efnislega heldur senda þá þess í stað til annars lands á Schengen-svæðinu. Þess eru fá dæmi að hælisleitendur hafi verið sendir til Íslands frá öðrum löndum á grundvelli þessarar reglu - umferðin hefur verið í hina áttina. Aðalatriðið er þó að íslensk stjórnvöld eru ekki neydd til neins á grundvelli Dyflinnarreglunnar. Þegar vitnað er í hana er einungis verið að víkja sér undan alvarlegum spurningum um hvers vegna Útlendingastofnun treystir sér ekki til að meðhöndla mál allra hælisleitenda á Íslandi efnislega í ljósi þess hversu fáir þeir eru. Meðferð hælisleitenda er ekki tæknilegt úrlausnarefni heldur hápólitískt mál. Því var þess lítil von að mikil breyting yrði í stefnu Íslands gagnvart hælisleitendum á þessu tímabili þar sem sami flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, fór með dómsmálaráðuneytið í átján ár samfleytt. Á hinn bóginn urðu tímamót þegar mynduð var vinstri stjórn á Íslandi 1. febrúar sl. og sú stjórn vann svo þingmeirihluta í alþingiskosningum 25. apríl sl. Þau úrslit mætti skilja sem vísbendingu um breyttan vilja þjóðarinnar, í þessum málaflokki sem öðrum. Hin nýja ríkisstjórn setti enda breytingar í þessum málaflokki á oddinn þar sem í stjórnarsáttmála segir að „lög um hælisleitendur verði endurskoðuð" og með nafnbreytingu á dómsmálaráðuneyti í mannréttindaráðuneyti var gefið í skyn að virðing fyrir manneskjunni yrði hér eftir sett í öndvegi. Það er erfitt að rökstyðja að það sé sérstakt framlag til mannréttinda að halda áfram að senda helming hælisleitenda úr landi án þess að taka mál þeirra fyrir efnislega. Það er eigi að síður það sem hin nýja vinstri stjórn hefur gert. Steininn tók þó úr í seinustu viku þegar þrír hælisleitendur frá Írak og Afganistan fengu þessa snautlegu meðferð. Það dylst þó engum hvílíkt skelfingarástand er ríkjandi í þessum löndum. Þar að auki bera íslensk stjórnvöld ríka ábyrgð á því ástandi, hafandi stutt við bakið á innrásunum sem leitt hafa ómælda hörmung yfir Írak og Afganistan. Ekkert er síður sæmandi en að reka fólk frá þessum tveimur löndum frá Íslandi án þess að taka mál þess fyrir. Þessi vinnubrögð eru nákvæmlega eins og þau sem ríkt hafa undir fyrri hægri stjórnum og voru þá harðlega gagnrýnd af vinstrisinnuðum stjórnarandstæðingum. Þau ómerkja þar að auki fullkomlega hina nýlegu nafnbreytingu dómsmálaráðuneytisins og afhjúpa hana sem hræsnisfullt froðusnakk. Við stofnun vinstri stjórnar voru þau nýmæli viðhöfð innan framkvæmdarvaldsins að tvö ráðuneyti voru falin ópólitískum ráðherrum og átti að vera til marks um aukna fagmennsku innan stjórnsýslunnar. Þessir ráðherrar bera eftir sem áður pólitíska ábyrgð og sitja í skjóli sama þingmeirihluta og aðrir ráðherrar. Dómsmálaráðherra hefur sömu pólitísku skyldur við almenning og þeir ráðherrar sem eru þjóðkjörnir alþingismenn og sækir umboð sitt til flokkanna sem mynda þingmeirihlutann. Eru þessir flokkar, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin-grænt framboð, sáttir við að vinnubrögð gagnvart hælisleitendum hafi ekkert breyst við valdatöku þeirra? Reka þessir flokkar sömu stefnu gagnvart þeim og sjálfstæðismennirnir sem áður voru gagnrýndir af þeim? Kjarni málsins er þó sá að það virðingarleysi sem hælisleitendum er sýnt á Íslandi er hvorki góð fagmennska né góð pólitík. Þjóðarbúið hefur vissulega tekið ýmsar dýfur að undanförnu en oft hefur ræst betur úr en á horfðist og Íslendingar eru svo sannarlega enn þá í hópi ríkustu þjóða heims í efnahagslegu tilliti. Þjóð sem ekki ræður við að taka árlega við fjörutíu manneskjum sem biðja hér um hæli skortir ekki peninga heldur gott hjartalag.