Handbolti

Öruggt hjá Rhein-Neckar Löwen í Bosníu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson í leik með Rhein-Neckar Löwen.
Guðjón Valur Sigurðsson í leik með Rhein-Neckar Löwen. Nordic Photos / Getty Images

Rhein-Neckar Löwen vann í dag öruggan fimmtán marka sigur á Bosna Sarajevo í Meistaradeild Evrópu í dag, 39-24.

Liðið er því með fimm stig af sex mögulegum í B-riðli. Snorri Steinn Guðjónsson skoraði fjögur mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen, Ólafur Stefánsson tvö og Guðjón Valur Sigurðsson tvö.

Sigurinn var afar öruggur eins og tölurnar gefa til kynna og var munurinn strax orðinn fimmtán mörk eftir 40 mínútna leik. Þá var staðan 30-15.

Það var einnig leikið í þýsku úrvalsdeildinni í dag. Füchse Berlín vann sigur á Düsseldorf, 32-27. Rúnar Kárason komst þó ekki á blað hjá fyrrnefnda liðinu en Dagur Sigurðsson er þjálfari þess.

Sturla Ásgeirsson skoraði eitt mark fyrir Düsseldorf í leiknum.

Þá vann Minden þriggja marka sigur á Balingen, 22-19. Ingimundur Ingimundarson skoraði tvö mörk fyrir Minden og Gylfi Gylfason eitt.

Füchse Berlin er í áttunda sæti deildarinnar með átta stig, Minden því þrettánda og Düsseldorf í neðsta sætinu með eitt stig.

Þá skoraði Einar Ingi Hrafnsson eitt mark fyrir Nordhorn sem tapaði fyrir Empor Rostock á útiveli í þýsku B-deildinni, 28-26. Nordhorn er í áttunda sæti norðurriðils deildarinnar.

Í sama riðli vann Ahlener sigur á Post Schwerin, 37-34. Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði fjögur mörk fyrir Ahlener en liðið er þriðja sæti riðilsins.

Að síðustu má nefna að Kadetten Schaffhausen, lið Björgvins Pals Gústavssonar markvarðar, vann sinn áttunda sigur í svissnesku úrvalsdeildinni í dag í jafn mörgum leikjum. Liðið vann öruggan sigur á Kriens-Luzern, 33-25.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×