Handbolti

Arnór með sex í sigri FCK

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Atlason í leik með íslenska landsliðinu.
Arnór Atlason í leik með íslenska landsliðinu. Nordic Photos / AFP

Fjölmargir Íslendingar voru í eldlínunni með sínum liðum í norska, sænska og danska handboltanum í gær.

Arna Sif Pálsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Horsens sem tapaði, 30-20, fyrir FCK í dönsku úrvalsdeildinni í gær. Þá var Rut Jónsdóttir með tvö mörk fyrir Team Tvis Holstebro er liðið tapaði fyrir Midtjylland, 35-24, á heimavelli.

FCK er taplaust á toppi deildarinnar með átján stig eftir níu umferðir og Midtjylland í öðru sæti með fjórtán stig. Team Tvis er í níunda sæti deildarinnar með sex stig og Horsens í því ellefta og næstneðsta með tvö stig.

Þá var einnig leikið í karladeildinni í Danmörku. Arnór Atlason fór mikinn í sigri FCK á Viborg og skoraði sex mörk í 35-29 sigri liðsins. FCK er í fjórða sæti deildarinnar með fjórtán stig.

Gunnar Steinn Jónsson skoraði þrjú mörk fyrir Drott sem vann nauman sigur á Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í gær, 29-28. Einar Guðmundsson komst ekki á blað hjá Kristianstad.

Drott er í fimmta sæti deildarinnar með átta stig eftir sex leiki. Kristianstad er í þrettánda og næstneðsta sæti deildarinnar með þrjú stig.

Einnig var spilað í Noregi í gær. Haugaland, lið Ólafs Hauks Gíslasonar markvarðar, tapaði fyrir Runar á útivelli, 31-24.

Meistararnir í Fyllingen töpuðu stórt fyrir Bækkelaget á útivelli, 34-25. Andri Stefan skoraði þrjú mörk fyrir Fyllingen í leiknum.

Þá vann Elverum sex marka sigur á Bodö, 33-27. Sigurður Ari Stefánsson komst ekki á blað í leiknum en hann leikur með Elverum.

Elverum er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar eftir fimm umferðir. Fyllingen er í sjöunda sæti með fjögur stig og Haugaland í níunda með þrjú stig.

Í úrvalsdeild kvenna tapaði Levanger fyrir Storhamar á heimavelli, 34-25. Ágúst Jóhannsson er þjálfari liðsins. Rakel Dögg Bragadóttir er nýgenginn til liðs við Levanger en er enn að jafna sig eftir meiðsli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×