Fótbolti

Juventus náði jafntefli gegn Inter

AFP

Juventus hélt lífi í baráttunni um ítalska meistaratitilinn í dag þegar liðið náði 1-1 jafntefli við Inter þrátt fyrir að vera manni færri.

Lærisveinar Jose Mourinho er enn með pálmann í höndunum þegar sex umferðir eru eftir og hafa tíu stiga forskot á Juventus á toppnum.

Mario Balotelli kom Inter yfir í leiknum á 64. mínútu en varnarmaðurinn Zdenek Grygera jafnaði metin í uppbótartíma. Tiago var vikið af velli hjá Juventus þegar 15 mínútur voru eftir af leiknum.

Genoa tapaði 1-0 heima fyrir Lazio og á fyrir vikið minni möguleika á því að vinna sér sæti í Evrópukeppninni. Argentínumaðurinn Mauro Zarate skoraði sigurmarkið í leiknum og skaut Rómarliðinu í sjöunda sætið.

Þá var Emil Hallfreðsson í byrjunarliði Reggina sem náði í dýrmætan 1-0 útisigur á Atalanta þrátt fyrir að eiga undir högg að sækja allan leikinn. Liðið á veika von um að halda sæti sínu í deildinni þrátt fyrir að vera enn á botninum. Reggina hefur 23 stig, Lecce 24 og Bologna og Torino hafa 26 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×