„Það er siðferðislega ámælisvert að hagnýta sér lög sem maður sjálfur átti þátt í að samþykkja, þó þau hafi ekki formlega tekið gildi," segir Sigurður Líndal, lagaprófessor við frétt Stöðvar 2 þar sem sagt var frá því að FL Group styrkti Sjálfstæðisflokkinn um 30 milljónir þann 29. desember 2006, aðeins þremur dögum áður en lög um hámarksstyrki til stjórnmálaflokka tóku gildi.
Sigurður segir að lögin hafi verið sett til þess að tryggja heilbrigða stjórnarhætti og þykir það undarlegt að flokkurinn hafi tekið við fjárframlaginu, og þá setur hann þann fyrirvara á að fréttinn sé rétt.
Hann segir það einnig afar slæmt fyrir trúverðugleika stjórnmálaflokks að taka við svo hárri upphæð og frá jafn umdeildu félagi.
„Það skerðir trúverugleikann," segir Sigurður um málið og bætir við að svona hár styrkur sé til þess fallinn að vekja tortryggni.