Alþingi kýs á morgun nýjan varamann í landsdóm í stað Unnar Brár Konráðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Unnur var kjörin varamaður fyrir fjórum árum en hún tók sæti á Alþingi eftir kosningarnar í apríl. Það fer ekki saman.
Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál en dómurinn hefur aldrei verið kallaður saman. Landsdómur er skipaður 15 einstaklingum.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, veltir því upp í bók sinni, Umsátrið, að ráðherrar kunni að verða látnir svara til saka vegna bankahrunsins samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð og dregnir fyrir landsdóm. Ritstjórinn telur hugsanlegt að ummæli Páls Hreinssonar, formanns rannsóknarnefndar Alþingis sem skilar skýrslu eftir áramót, um að engin nefnd hafi orðið að flytja þjóð sinni jafn erfiðar fréttir hafi meðal annars verið sett fram til að undirbúa almenning fyrir þetta.
