Fótbolti

Buffon: Ég má ekki fá á mig mörk lengur

Buffon horfir á eftir þrumuskoti Emils í netið um síðustu helgi
Buffon horfir á eftir þrumuskoti Emils í netið um síðustu helgi AFP

Ítalski markvörðurinn Gianluigi Buffon hjá Juventus hefur verið gagnrýndu nokkuð fyrir frammistöðu sína milli stanganna undanfarið.

Þessi frábæri markvörður segir gagnrýnina óréttmæta þó hann hafi reyndar oft staðið sig betur en í vetur.

"Fólk er búið að vera að gagnrýna mig í hálft ár. Það er eins og eigi að banna mér alfarið að fá á mig mörk," sagði markvörðurinn í samtali við franska blaðið L´Equipe.

"Já, ég á við vandamál að stríða. Vandamálið er það að ég virðist ekki mega fá á mig mörk. Ég veit alveg hvenær ég geri mistök og hvenær ekki. Það er í fínu lagi með mig. Skoðið bara leiki mína í vetur. Ég hef varið mikilvæg skot í 18 þessara leikja. Það getur enginn sagt að Juventus hafi tapað leik mín vegna. Það er staðreynd," sagði landsliðsmarkvörðurinn.

Um síðustu helgi mátti Buffon hirða boltann úr netinu eftir þrumufleyg frá íslenska landsliðsmanninum Emil Hallfreðssyni.

Juventus hefur fengið á sig níu mörk í síðustu fjórum leikjum og hefur ekki unnið sigur í síðustu fjórum leikjum sínum. Liðið er í þriðja sæti deildarinnar eftir að hafa misst AC Milan fram úr sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×