Körfubolti

Norður Karólína háskólameistari

Nordic Photos/Getty Images

Lið Norður Karólínu varð í nótt háskólameistari í körfuknattleik í Bandaríkjunum þegar liðið vann auðveldan sigur á Michigan í úrslitaleik í Detroit 89-72.

Karólínuliðið var fyrir leikinn talið sigurstranglegra og hafði sjálfur forsetinn Barack Obama þegar spáð liðinu sigri í keppninni.

Karólína hafði yfir 55-34 í hálfleik, sem var mesta hálfleiksforysta í úrslitaleikknum í 42 ár og eftirleikurinn var liðinu auðveldur eins og reyndar titilhlaup liðsins allt.

Liðið vann alla leiki sína í keppninni með meira en tíu stiga mun, fyrst liða frá því Duke skólinn afrekaði það árið 2001. Þetta var fimmti titill Karólínuliðsins.

NBA stjörnurnar Magic Johnson og Larry Bird voru saman komnir við sérstaka athöfn fyrir leikinn, sem haldin var til að minnast þess að þrír áratugir eru frá sögulegu einvígi liða þeirra í úrslitaleik háskólaboltans.

Þá vann Michigan state sinn fyrsta sigur í keppninni undir stjórn Magic Johnson, en lið hans átti aldrei möguleika í Karólínu í leiknum í gærkvöld sem spilaður var fyrir framan tæplega 73,000 áhorfendur.

Ty Lawson skoraði 21 stig fyrir Karólínu í leiknum, Wayne Ellington 19 og Tyler Hansborogh skoraði 18 stig. Goran Suton var atkvæðamestur hjá Michigan með 17 stig og Kalin Lucas skoraði 14 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×