Sjálfstæðisfélagið Óðinn á Selfossi skorar á nýja frambjóðendur til þess að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Félagið telur mikilvægt að það verði endurnýjun í forystu flokksins og þingmannaliði. Ljóst sé að þær breytingar nái ekki fram að ganga, nema nýtt fólk gefi kost á sér.
Þessi ályktun sjálfstæðisfélagsins verður tæpast talin vera sérstök traustsyfirlýsing á garð núverandi þingmanna flokksins í kjördæminu en þeir eru fjórir, Árni M. Mathiesen, Kjartan Ólafsson, Árni Johnsen og Björk Guðjónsdóttir.
Orðrétt hljómar ályktun stjórnar Óðins svo:
,,Stjórn sjálfstæðisfélagsins Óðins á Selfossi skorar á nýja frambjóðendur að gefa kost á sér í því prófkjöri sem framundan er þann 14. mars í Suðurkjördæmi.
Almenn og víðtæk krafa um breytingar og lýðræðislegar umbætur kallar á endurnýjun á framboðslistum í samræmi við vilja og óskir íbúa kjördæmisins. Þá er mikilvægt að þeir sem skipa framboðslistann sem boðinn verður fram í komandi Alþingiskosningum endurspegli fjölbreytileika og kraft Suðurkjördæmis."
