Handbolti

Mudrow kominn aftur til Lemgo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Volker Mudrow, þjálfari Lemgo.
Volker Mudrow, þjálfari Lemgo. Nordic Photos / Getty Images

Volker Mudrow er aftur tekinn við þjálfun þýska úrvalsdeildarfélagsins Lemgo en Markus Baur var í gær rekinn frá félaginu.

Mudrow var þjálfari Lemgo frá 2002 til 2007 og gerði Lemgo að þýskum meisturum á sínu fyrsta tímabili með félaginu. Undir hans stjórn vann liðið einnig EHF-bikarkeppnina árið 2006.

Með félaginu leika Íslendingarnir Logi Geirsson og Vignir Svavarsson og sagði sá fyrrnefndi í samtali við Vísi vera hæstánægður með ráðningu Mudrow.

„Þetta er þjálfarinn sem keypti mig til Lemgo á sínum tíma og ég er mjög ánægður með að hann skuli vera kominn aftur," sagði Logi. Hann sagði að brottvísun Baur hafi ekki komið sér á óvart. „Það var bara tímaspursmál enda okkur búið að ganga ömurlega á undirbúningstímabilinu."

Lemgo mætir í kvöld Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni og mun Mudrow stýra liðinu þá. Logi verður ekki með Lemgo vegna meiðsla en hann er þó allur að koma til.

„Ég er orðinn 95 prósent góður en á enn eftir að fá grænt ljós frá læknunum. Það er stutt í að ég geti spilað á fullu aftur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×